LÓN, Árný Margrét, Vévaki og gugusar koma fram á Eurosonic í Hollandi

 

 Eurosonic er tónlistarhátíð, ráðstefna og einn mikilvægasti vettvangur Evrópu fyrir útvarpsstöðvar og tónlistarhátíðir til að uppgötva upprennandi tónlistarfólk. Árný Margrét er jafnframt ein af 15 tilnefndum til Music Moves Europe verðlaunanna.  Rás 2 og Iceland Music verða á staðnum. 

 
 

Iceland Music kynnir með stolti fjögur íslensk tónlistaratriði sem koma fram á ESNS – Eurosonic hátíðinni sem fer fram í Groningen í Holland í vikunni, en hátíðin er sett miðvikudaginn 17. janúar. Fulltrúar Íslands 2024 eru gugusar, Árný Margrét, LÓN, og Vévaki. 

Til viðbótar er Árný Margrét tilnefnd til Music Moves Europe verðlaunanna, en það er viðurkenning veitt mest spennandi tónlistarfólki álfunnar hverju sinni. Fyrrum sigurvegarar telja til að mynda Dua Lipa, Rosalia, Hozier, og Christine and the Queens. Áður hafa bæði Reykjavíkurdætur (2019) og Ásgeir Trausti (2014) veitt verðlaununum viðtöku frá Íslandi.

Hópurinn í ár er skemmtilega fjölbreyttur, og fer úr danstónlist yfir í metaltónlist með viðkomu í hljómfögrum lagasmíðum – en hægt er að hlusta á þau öll á Iceland Music Ethereal lagalistanum.

Tónlistarfólk sækir hátíð eins og Eurosonic í ósk um að styrkja sitt erlenda tengslanet og finna ný tækifæri til útflutnings fyrir sína tónlist. Þessi hátíð hefur í gegnum tíðina reynst íslensku tónlistarfólki vel en áður hafa komið fram á hátíðinni Kaleo, Daði Freyr, Ásgeir, Vök, Júníus Meyvant, Sóley, Mammút, Skálmöld og mörg fleiri atriði sem hafa átt farsælan feril í útflutningi síðan. Einnig var Ísland fókusland á hátíðinni árið 2015 og stigu þá á stokk 19 tónlistaratriði frá Íslandi. 

Fulltrúar frá Iceland Music verða á staðnum til stuðnings við tónlistarfólkið og til að kynna fyrir ráðstefnugestum ‘Record in Iceland’ - endurgreiðslur á upptökukostnaði sem stofnað er til hér á landi. 

Euroradio Eurosonic Festival er svo undirviðburður þar sem ríkisútvarpsstöðvar velja hljómsveit frá sínu landi til að kynna. LÓN tekur þátt fyrir hönd Íslands, en Rás 2 sá um valið.



Fyrir nánari upplýsingar og frekari milligöngu má hafa samband: 

Leifur Björnsson, +354 7737129 leifur@icelandmusic.is
Sigtryggur Baldursson, +354 697 6425‬, sigtryggur@icelandmusic.is

 
Iceland Music