Skilgreiningar

Oft þegar menn taka sín fyrstu skref í tónlistargeiranum vefst fyrir þeim allskyns hugtök og skilgreiningar. Best er að kynna sér vel hvað öll orðin þýða, bæði til þess að forðast misskilning og til þess að hámarka fagmennsku í samskiptum við erlenda viðskiptaaðila.

360 deal
(e. 360 samningur)

360 samningar hafa orðið vinsælli á síðustu árum þar sem tekju uppspretta tónlistarmanna er ekki lengur mestmegnis plötusala, heldur einnig sala á varningi, bolum etc,  miðum á tónleika, vínyl, og margt fleira. Þegar þú skrifar undir 360 samning þá fær plötuútgáfa eða samningsaðili 20% af öllum tekjum þínum af tónlist þinni, sama hvaðan þær koma. Þetta hefur færst í vöxt, sérstaklega hjá smærri fyrirtækjum, síðustu ár, vegna erfiðleika við plötusölu, smærri plötuútgáfur hafa þá farið að færa sig meira inná önnur svið eins og bókanir og fleira.


Agent eða booking agent (e. bókari)

Bókarinn þinn vinnur á bókunarskrifstofu og er aðal manneskjan þegar kemur á lifandi flutningi á tónlist þinni. Bókarinn er vel tengdur og getur komið þér fyrir framan réttu áhorfendurnar í þeim löndum og borgum sem skipta þér máli. Bókarinn semur einnig við tónleikahaldara um gjöld, fyrirkomulag og backline.

Íslenska orðið “bókari” á einnig við um aðila sem bóka hljómsveitir inn á tónlistarhátíðir eða tónleikastaði. Á ensku er þetta oftast kallað “promoter” eða “booker”.

Til dæmis myndi Booking Agent (bókunarsskrifstofa) í London hafa samband við Promotera (tónleikahaldara) í hinum ýmsu borgum bretlands sem myndu síðan tala við “Venue” (tónleikastaði)


Artist and repertoire, A&R

Aðili getur unnið sem “A&R Manager” en það starf var bæði mikilvægara og algengara áður en tæknibyltingin og internetvæðingin átti sér stað. A&R stjóri vinnur fyrir plötuútgáfu og sér um að finna nýja hæfileikaríka tónlistarmenn eða lagasmiði til þess að bæta við sinn lista.


Backline

Backline er þau hljóðfæri og magnarar, tæki og tól,  sem er þegar til staðar þegar þú mætir á tónleikastað til þess að spila gigg. Hljómsveitir sem notast við trommara ferðast sjaldnast með trommusettið og borgar sig oftast að leigja “backline” á tónleikastöðum. Yfirleitt taka hljómsveitir með sér það sem þær þurfa nauðsynlega, það sem er virkilega persónulegt, eins og gítara og bassa og/eða sérstök hljómborð eða slagverk/pad og slíkt. Tónleikahaldari borgar yfirleitt fyrir “Backline” en oft hljómsveitir sjálfar, eftir samkomulagi.


Distributor (e. dreifingaraðili)

Dreifingaraðili sér um að dreifa lagi eða plötu fyrir tónlistarmann í plötubúðir og verslanir hvort sem það sé stafrænt eða ekki. Vinsælir stafrænir dreifingaraðilar eru t.d. DreifirTuneCore og CD Baby.


Indie label (e. sjálfstætt plötufyrirtæki)

Sjálfstæð plötufyrirtæki eru öll smærri plötufyriræki sem eru ekki, eða eru ekki hluti af, Universal Music Group, Sony Music Entertainment eða Warner Music Group.


Label (e. útgáfufyrirtæki)

Útgáfufyrirtæki gefur út verk eftir tónlistarmann. Það sér um dreifingu og oft um ýmsar hliðar kynningar. Fyrirtæki vinnur náið með umboðsmanni eða listamanninum.


Licensing (e. leyfismál)

Þegar verk er samið og gefið út geta vafist fyrir fólki alls kyns leyfismál. Tónhöfundur felur STEF og hugsanlega einnig tónlistarforleggjara að sjá um að innheimta gjöld fyrir opinberan flutning þeirra verka sem hjá viðkomandi eru skráð, en einnig verður að veita leyfi þegar óskað er eftir því að nota lag í hagnaðarskyni, t.d. í auglýsingu. Höfundarréttarhafi sér um leyfismál fyrir sín verk, eða sá sem hefur löglegt umboð, t.d. umboðsmaður eða útgefandi.

Licensing er einnig notað sem hugtak þegar útgefandi í einu landi, gerir samning um útgáfu verks í öðru landi og í stað þess að dreifa verkum eru þau framleidd þar og dreift, þá er talað um licensing vs. distribution.


Manager (e. umboðsmaður)

Þó flestir vita nokkrun veginn hvað umboðsmaður er þá skapast oft ruglingur um nákvæma skilgreiningu á hlutverki umboðsmanns. Umboðsmaður vinnur náið með tónlistarmanni og talar fyrir hans hönd við viðskiptaaðila t.d. útgáfufyrirtæki bókunarskrifstofu (Booking Agent) og tónlistarforleggjara (Publisher). Umboðsmaður sér einnig um samningagerð, tengslamyndun, styrktarumsóknir og samskipti við blaðamenn. Umboðsmaður tekur þóknun af tekjum tónlistarmanns, oft í kring um 20% af öllum nettó tekjum. Þetta er oft mikilvægasti samstarfsmaður listamannsins. Hinsvegar getur þetta verið mjög erfitt og lítt ábátasamt starf, nema tónlistamennirnir séu að þéna þess mun betur.


Merchandise (e. varningur)

Sala á hljómsveitavarning er ein stærsta tekjulind sem er í boði fyrir tónlistarmennr í dag. Með hugtakinu er átt við geisladiska, vínylplötur, hljómsveitaboli og allt þar á milli.


Music Supervisor (e. tónlistarstjórn)

Hlutverk tónlistarstjóra er að velja lög í kvikmyndir, sjónvarpsþætti, auglýsingar og tölvuleiki. Tónlistarsjórar starfa annaðhvort sjálfstætt og eru þá beðnir um tillögur að tónlist í ýmiskonar framleiðslu, eða þá að þeir starfa hjá ýmiskonar fyrirtækjum eins og kvikmyndafyrirtækjum og stórum auglýsingastofum eða kvikmyndaverum og framleiðslufyrirtækjum í geiranum. Tónlistarstjórinn finnur lag við hæfi, hefur samband við rétthafa og gerir samninga um notkun á laginu.


Press kit / EPK (e. kynningarpakki)

Press kit eða electronic press kit, EPK, er samansafn af alls kyns kynnarefni frá tónlistarmanni. Hefðbundið er að slíkt innihaldi lag, ljósmyndir í háum gæðum, hlekki á alla samfélagsmiðla og heimasíðu, stuttan texta um tónlistarmanninn eða hljómsveitina og annað sem gæti komið að notum fyrir blaðamenn sem vilja fjalla um þau. Þetta er gert til þess að gera verkefni blaðamanna eins auðvelt og hægt er og þannig auka líkur á umfjöllun. Nú til dags tíðkast oft að EPK séu geymd á DropBox, WeTransfer eða öðrum heimasíðum sem deila gögnum.


Publishing (e. tónlistarforlag)

Á Íslandi eru STEF – samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar sem höfundar skrá verk sín hjá. Samtökin innheimta gjöld fyrir opinberan flutning sem er meðal annars útvarpsspilun og hverskonar annar flutningur á tónlist, bæði á Íslandi og erlendis. Erlendis eru hinsvegar til fyrirtæki sem gera samninga við tónlistarmenn um söfnun höfundaréttartekna og borga oft fyrirframgreiðslur sem tónlistarmennirnir geta þá eytt í vitleysu, (lesist nauðsynjar). Tónlistarmaður skrifar undir forleggjarasamning (e. publishing) fyrir tiltekin verk og fyrirtækið sér svo um að safna gögnum um hvar tónlistin er notuð, safnar þóknunum (e. royalties), annast samskipti við höfundaréttarsamtök og borgar svo höfundi hluta af þeim fjármunum, en tekur þóknun fyrir vinnu sína. Hluti þóknunar kemur þó alltaf beint frá höfundaréttarsamtökum til höfundarins.


Soundcheck/Line check (e. hljóðprufa)

Áður en tónleikar hefjast þarf að setja allar græjur upp á sviðinu og tengja þær í gegnum kerfið, svo þarf að jafna hljóðið svo að allt hljómi skýrt. Línu tékk taka einungis stuttan tíma í að ganga úr skugga um að allt hljómi rétt uppi á sviðinu og eru iðullega tekin milli hljómsveita.


Stage plot (e. sviðsskipulag)

Uppröðun hljóðfæraleikara og hljóðfæranna á sviðinu ætluð hljóðmönnum. Oft sent ásamt lista sem telur upp hvernig snúrur og hljóðnema þarf fyrir hvert hljóðfæri.


Sync

Sync er sala á tónlist í kvikmyndir, sjónvarp, auglýsingar o.s.fr. Talað er um að tónlistarmaður fái gott sync til dæmis þegar Ólafur Arnalds selur lag í kvikmyndina Hunger Games, sem hann hefur væntanlega fengið ágætlega greitt fyrir:-) Tónlistarforleggjarar safna þóknun fyrir sync réttindi sem veitt eru með leyfinu og góður tónlistarforleggjari (Publisher) er duglegur að ota lögum að tónlistarstjórum. Margir hafa góð sambönd sín á milli (lesist – klíkuskapur).