Ráðstefna og tengslamyndun á Iceland Airwaves

Airwaves ráðstefna ÚTÓN fer fram í fjórða sinn dagana 7.-10. nóvember nk. Á ráðstefnunni verður boðið upp á pallborðsumræður, tengslamyndunarfundi og vinnusmiðjur. Ráðstefnan er skipulögð af ÚTÓN í samstarfi við Iceland Airwaves og verður haldin á Centerhotel Plaza, Aðalstræti 4-6.


Á ráðstefnunni gefst gestum tækifæri til að heyra um það helsta sem er að gerast í tónlistarheiminum í dag, en tónlistariðnaðurinn er á stöðugri hreyfingu og fer ekki varhluta af framförum í tækni og samfélagsbreytingum og munu pallborðsumræður leitast við að skoða áhrif þessara breytinga á tónlistariðnaðinn hér heima sem erlendis.


Boðið er upp á úrval af tengslamyndunarfundum þar sem tónlistarfólki og stjórnendum tónlistarverkefna gefst kostur á að hitta bókara frá tónlistarhátíðum, umboðsmenn og annað fagfólk og kynna tónlist sína.


Upplýsingar um viðburðina

Miðvikudagur 7. Nóvember

  • Vinnustofur með erlendum tónlistarráðgjöfum: Viðburður sem haldinn verður af STEF og ÚTÓN. Þátttakendum gefst færi á að hitta tónlistarstjóra sem sumir starfa fyrir marga af vinsælustu sjónvarpsþáttum og kvikmyndum heims í dag, auk tónlistarstjóra sem velja lög í auglýsingar um heim allan. Viðburðurinn fer fram í heimkynnum STEF.


Fimmtudagur 8. Nóvember

  • Tengslamyndunarfundir: Haldnir verða tengslamyndunarfundir með bókurum frá tónlistarhátíðum og tónleikabókurum (e. Booking agents), umboðsmönnum og tónlistarstjórum. Sækja þarf um þátttöku á þessum fundum og fer skráning fram hjá ÚTÓN. Tónlistarfólk sem spilar á Airwaves mun fá sendar skráningarupplýsingar en aðrir geta haft samband við ÚTÓN til að sækja um þátttöku.

  • Pitch fundir: Fimm útvalin tónlistarverkefni kynna sig og framtíðaráætlanir sínar fyrir bókurum frá tónlistarhátíðum og tónleikabókurum.


Föstudagur 9. Nóvember

Tónlistarfólk, fagfólk og áhugafólk um tónlistariðnaðinn er boðið velkomið á þennan ráðstefnudag þar sem boðið verður upp á pallborðsumræður og áhugaverða fyrirlestra. Umræðuefnin eru m.a. um notkun Blockchain í tónlist, jafnrétti og kynferðislega áreitni og hvernig tónlistarfólk getur best nýtt streymisveitur.

Aðgangur þennan dag er að kostnaðarlausu og opin öllum.