Hvaða sveit verður fulltrúi íslands á Wacken Open Air í sumar?

mb-FB-icon.jpg
 
  • Opnað hefur verið fyrir skráningu í Wacken Metal Battle 2019.

  • Umsóknarfrestur er til og með 3. apríl 2019!

  • Keppnin haldin 11. maí á Húrra - Sérstakir gestir: Une Misère

Tónlistarhátíðina WACKEN OPEN AIR í Norður-Þýskalandi þarf varla lengur að kynna fyrir íslenskum rokkurum enda er hátíðin ein sú stærsta og virtasta í þungarokkinu.

Á hverju ári stendur Wacken fyrir hljómsveitakeppninni W:O:A METAL BATTLE og verður hún haldin í níunda sinn á Íslandi í ár. 6 sveitir keppa um stóra hnossið: Að komast á Wacken Open Air að spila og taka þátt í lokakeppninni þar sem til margs er að vinna.

une misere.jpeg

Var það sveitin Une Misère sem sigraði í íslensku undankeppninni síðast og fór því út til Wacken fyrir Íslands hönd þar sem hún hafnaði hvorki meira né minna en í 4. sæti! Var það í annað árið í röð sem Ísland lenti í topp 5 í keppninni en árið á undan landaði sveitin Auðn 3. sætinu. Frábær árangur það og gríðarleg kynning fyrir íslenska tónlist eins og sjá má meðal annars í þessu innslagi sem birtist í sjónvarpsþættinum PopXport á þýsku stöðinni DW (Deutche Welle) í fyrra.

Það er ekki ofsögum sagt að Wacken setur gríðarlegt púður í þessa keppni. Keppnin hefur verið haldin síðan 2004 og opnar hátíðin tónleikasvæðið sitt alveg degi áður en annað markvert byrjar á henni og hleypur að 30 alls óþekktum sveitum sem eru ekki með útgáfusamning að hátíðinni. Hún býður stóði af alls konar bransaliði til að fylgjast með keppninni og hljómsveitunum og gefur sveitunum fullkomið tækifæri til þess að koma sér á framfæri. Svona lagað er fordæmalaust á öðrum tónlistarhátíðum af þessari stærðargráðu.

une misere 2.png

Une Misère nýttu sér þetta til fulls þegar þeir lönduðu bókunarsamningi við Doomstar Bookings, sem Wacken bauð einmitt til að fylgjast með keppninni. Í kjölfarið lönduðu þeir svo útgáfusamningi við stærsta óháða þungarokkslabel heims, Nuclear Blast Records og hafa spilað á fjöldanum öllum af tónleikum síðan á erlendri grundu, m.a Roadburn Festival og Eurosonic í Hollandi og munu í sumar spila á m.a. Summer Breeze hátíðinni í Þýskalandi og Metal Days í Slóveníu. Mun Une Misère loka kvöldinu af sinni alkunnru snilld og taka fullt sett.

Er ljóst að hér verður öllu tjaldað til. Viðburðinn hefur verið með flottari viðburðum í þungarokkinu á klakanum síðustu ár en reynslan sýnir að þátttökusveitirnar eiga sín allra bestu gigg í þessari keppni, enda mikið í húfi.

Skilyrði til þátttöku og hvernig maður sækir um má finna á www.facebook.com/WackenMetalBattleIceland

Farið verður vandlega yfir umsóknir og mun sérstök nefnd velja 6 sveitir til að keppa. Það gildir því EKKI fyrstur kemur fyrstur fær, heldur gæði! Því eru sveitir hvattar til að vanda vel til umsókna, skila tónlist í góðum gæðum o. þ.h.

Nánari upplýsingar um keppnina má finna:

* á www.metal-battle.com,

* á www.facebook.com/WackenMetalBattleIceland

* og hjá Þorsteini Kolbeinssyni, s. 8234830