Úthlutunarreglur

fyrir Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar

 
 

Markmið og tilgangur

Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar starfar skv. reglum samþykktum af mennta- og menningarmálaráðherra þann 5. febrúar 2013. Hlutverk útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar er að styrkja íslenskt tónlistarfólk við að koma tónlist sinni til stærri áheyrendahóps, á stærri markaði og auka möguleika þess á velgengni utan Íslands.

Með sjóðnum verður til aukin fjárhagsaðstoð til tónlistarfólks á tónleikaferðalögum, aukin aðstoð til tónlistarfólks við þróun verkefna, aukin tækifæri til að komast á erlendar tónlistarhátíðir og auknir möguleikar skapast á tengslamyndun. Ísland er afar lítill markaður.

Mikilvægt er að auðvelda íslensku tónlistarfólki að koma tónlist sinni á framfæri sem víðast. Sú reynsla, þekking og sambönd sem skapast hafa innan ÚTÓN verða nýtt til að aðstoða tónlistarfólk í viðleitni sinni til að ná inn á stærri markaði. Útflutningssjóður mun, með aðstoð reynslu- og kunnáttufólks, gera tónlistarfólki betur kleift að þróa og fullvinna verkefni sín, aðstoða það við tónleikaferðalög og markaðssetningu.

Kannanir á árangri sjóða sem veita fé til stuðnings tónlistarútflutnings hafa leitt í ljós að færri og stærri úthlutanir skila meiri árangri. Sjóðurinn veitir  styrki til verkefna er lúta að markaðssókn erlendis og reglulega verða veittir minni ferðastyrkir. 

Framkvæmd

Stærri styrkir auglýstir til umsóknar, fjórum sinnum á ári.

Úthlutanir til stærri verkefna verða fjórum sinnum á ári en mánaðarlega til smærri verkefna og vegna ferðastyrkja. Miðað er við að umsækjendur vinni með fagaðilum, hafi skýrar áætlanir og markmið. Þeir sem hljóta stærri styrki þurfa að leggja fram markaðsáætlanir og sýna fram á hvernig stuðningurinn getur skapað tækifæri til tekjuaukningar og sjálfbærni. Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um úthlutanir styrkja en ef þurfa þykir munu ráðgjafar taka til umfjöllunar umsóknir sem berast sjóðnum og gefa álit sitt áður en stjórn tekur endanlega ákvörðun um úthlutun.

Gert er ráð fyrir því að umsækjendur leggi sjálfir fram mótframlag í viðkomandi verkefni gegn þeim styrk sem samþykktur verður. Verkefnin geta fengið ráðgjöf hjá ÚTÓN í sambandi við skipulag, áætlanir og tengslamyndun.

Skilyrði fyrir greiðslu er að greinargerð sé skilað til ÚTÓN þar sem afrakstri verkefnisins er skilmerkilega lýst. Því stærri sem styrkurinn er, því ítarlegri kröfur eru gerðar til slíkrar greinargerðar.

Af hálfu sjóðsins verða gerðar skýrslur um stærri verkefni og fylgst með framvindu þeirra í því augnamiði að gera árangursmat í náinni framtíð.

 

Umsóknarferli

Sækja ber á rafrænu umsóknareyðublaði á heimasíðu ÚTÓN.

 

Úthlutun styrkja

  • Auglýst er fjórum sinnum á ári eftir umsóknum um stærri verkefni – fjórir styrkir að upphæð 1 milljón króna og átta styrkir að upphæð 500 þús. kr.

  • Umsóknarfrestir eru 1. febrúar, 1. maí, 1. ágúst, 1. nóvember (1 milljón + 2x 500.000 í hvert sinn) og tilkynnt er um úthlutun viku eftir umsóknarfrest. Umsóknir verða að berast fyrir miðnætti á síðasta degi hvers mánaðar.

  • Ferðastyrkir og minni verkefni, umsóknarfrestur einu sinni í mánuði, viðmiðun 50 þúsund krónur á mann í ferðastyrk og hámark 400 þúsund krónur á hvert verkefni.

  • Ráðgjafar gefa álit, en ákvarðanir um úthlutanir verða teknar af stjórn, a.m.k. mánaðarlega.

  • Tilkynnt er bréflega um afgreiðslu umsókna.

 

Frekari upplýsingar

Ferðastyrkir eru ætlaðir til niðurgreiðslu á ferðakostnaði vegna tónleikahalds. Miðað er við að haldnir séu minnst 4 tónleikar á meðan ferðalaginu stendur. Tónleikarnir verða að vera þegar bókaðir áður en sótt er um og áskilinn er réttur til að kalla eftir staðfestingu þess efnis.

Markaðsstyrkir eru veittir fyrir stærri markaðsátök á borð við PR herferðir, kynningarátök, gerð kynningarefnis og fleira. Ekki eru veittir markaðsstyrkir til þess að greiða ferðakostnað vegna tónleikahalds.

Eitt verkefni getur einungis fengið úthlutað þrisvar sinnum á ári í mesta lagi.

 

Samþykkt 16. apríl 2013

Uppfært 5.02.2014