Alþjóðlegar lagahöfundabúðir

pexels-damon-hall-1645851.jpg

ATH: Breyttar dagsetningar.

Í samstarfi við ÚTÓN býður STEF þremur meðlimum upp á að sækja alþjóðlegar lagahöfundabúðir. Búðirnar eru skipulagðar af NordicLA (www.nordic.la), sem staðið hafa fyrir slíkum búðum í nokkur ár við góðan orðstír. Þar taka þátt annars vegar norrænir tónhöfundar og hins vegar tónhöfundar og upptökustjórar í Los Angeles.

Að þessu sinni er boðið upp á fjórar mismunandi lagahöfundabúðir, sem vegna COVID verða haldnar eingöngu í gegnum netið.

Búið er að bæta við auka búðum í byrjun október.

1. Popptónlistarbúðir. Frá 5. október til 8. október, auk eins dags í vikunni á eftir.

2. Kvikmyndatónlist. Frá 26. til 29. október, auk eins dags í vikunni á eftir. Ætlað tónhöfundum sem vilja útvíkka feril sinn og starfa á alþjóðamarkaði. Fókus á að semja tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsframleiðslu og unnið með þekktum framleiðendum á því sviði. Unnið verður að tilteknum verkefnum sem fyrir liggja. Nú þegar liggur fyrir að meðal þátttakenda í þessum lagahöfundabúðum verða bæði Jeff Beal (sem m.a. samdi tónlistina í Netflix þáttunum House of Cards) og Jim Dooly, sem er Emmy-verðlaunahafi og hefur unnið mikið með kvikmyndaframleiðandanum DreamWorks.

3. Kynningarstef og stiklur (e. trailers). Frá 16. til 19. nóvember, auk eins dags í vikunni á eftir. Ætlað þeim sem hafa einhverja reynslu í að semja kvikmyndatónlist eða tónlist fyrir kvikmyndastiklur. Unnið verður með reyndum samstarfsaðila á þessu sviði fyrir tiltekin verkefni.

4. Lög samin af konum fyrir konur. Búðirnar verða í byrjun árs 2021 en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir. Ætlað tónlistarkonum (upptökustjórum, tónhöfundum og flytjendum) sem vilja semja tónlist fyrir þekkta kvenkyns flytjendur og stærri útgáfufyrirtæki í Bandaríkjunum. Fólki af öðrum kyngervum í minnihluta er einnig velkomið að sækja um.

Vegna tímamismunar við Kaliforníu má gera ráð fyrir viðveru ofangreinda daga frá því seinnipart dags og fram á kvöld, auk þess sem viðkomandi þarf líklega að vinna einhverja vinnu þess á milli.

STEF greiðir allan kostnað við lagahöfundabúðirnar, en þátttakendur þurfa sjálfir að skaffa sér vinnurými meðan á þeim stendur. Mjög mikilvægt er að þeir sem verða valdir til þátttöku taki þátt af heilum hug og taki frá nauðsynlegan tíma í verkefnið og veiti því forgang þá daga sem um er að ræða.

Þar sem stutt er í fyrstu búðirnar er nauðsynlegt að vera snöggur til. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt geta smellt á hlekkin hér fyrir neðan til þess að komast í umsóknareyðublað. Valið verður úr innsendum umsóknum.

Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi miðvikudaginn 19. ágúst nk.


Hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um verkefnið og drög að verkefnaplaninu. ATH dagsetningar eru ekki réttar.

Iceland Music