Úthlutunarreglur Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar

 

ÚTÓN VERÐUR TÓNLISTARMIÐSTÖÐ
– nýr vefur á leiðinni með upplýsingum um okkar starfsemi og styrki nýs Tónlistarsjóðs.

Tónlistarmiðstöð tekur við hlutverki Útflutningssjóðs að veita ferða- og markaðsstyrki fyrir útflutningsverkefni í tónlist.

Tilkynning um umsóknarfresti kemur í apríl. Ekki er hægt að sækja um styrki lengur af þessum vef.

MARKMIÐ OG TILGANGUR

Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar starfar skv. reglum samþykktum af mennta- og menningarmálaráðherra þann 5. febrúar 2013. Hlutverk útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar er að styrkja íslenskt tónlistarfólk við að koma tónlist sinni til stærri áheyrendahóps, á stærri markaði og auka möguleika þess á velgengni utan Íslands. 

Sjóðurinn styður við tónlistarfólk og fagaðila á sviði tónlistar í viðleitni sinni til að þróa og fullvinna tónlistarverkefni íslensks tónlistarfólks og koma á framfæri, með það að markmiði að auka sýnileika og fjölga tækifærum íslensks tónlistarfólks og skapa tengsl út fyrir Ísland.

FRAMKVÆMD

Sjóðurinn úthlutar markaðsstyrkjum og ferðastyrkjum. Markaðsstyrkir eru veittir fyrir kynningarherferðir erlendis. Ferðastyrkir eru veittir til tónleikahalds erlendis eða þátttöku í viðburðum erlendis sem miða að því að fjölga tækifærum og auka sýnileika utan Íslands. 

Auglýst er eftir umsóknum um markaðsstyrki fjórum sinnum á ári hið minnsta en ferðastyrkjum mánaðarlega.

Umsóknir skulu gerðar á eyðublöð sjóðsins, á vef ÚTÓN. 

Umsóknir um markaðsstyrki skulu berast fyrir miðnætti á síðasta degi auglýsts umsóknarfrests. Umsóknir um ferðastyrki sem berast fyrir miðnætti síðasta dag hvers mánaðar eru teknar fyrir í fyrri hluta næsta mánaðar. 

Eitt verkefni getur einungis fengið úthlutað að hámarki samtals þremur styrkjum á ári, hvort sem er um að ræða ferðastyrk eða markaðsstyrk.

Umsækjendum er tilkynnt um niðurstöðu umsókna með tölvupósti, en úthlutanir markaðsstyrkja eru einnig kynntar á vef ÚTÓN. 

MAT Á UMSÓKNUM

Umsóknir sem eru teknar til greina við úthlutun þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði: 

FYRIR FERÐASTYRKI

Umsókn um ferðastyrk:

  • Umsókn þarf að fylla út á umsóknareyðublaði á vef ÚTÓN.

  • Umsókn skal berast áður en viðburður fer fram.

  • Staðfesting á viðburði/þátttöku fylgi umsókn.

  • Með umsókninni fylgi skýr kostnaðaráætlun á því formi sem fylgir umsóknareyðublaði.

  • Umsækjandi eða meirihluti umsækjendahóps hafi skattfesti á Íslandi.

Við mat á umsóknum um ferðastyrk litið til eftirfarandi atriða:

  • Er tónlistarmaðurinn/hópurinn tilbúinn fyrir útflutning?

  • Mikilvægi tónleikanna/viðburðarins fyrir útflutning tónlistarinnar.

  • Fjölda tónleika á tónleikaferðalagi.

  • Er um frumflutning að ræða (fyrir tónskáld)?

  • Kostnaðaráætlun sýni fram á sannarlega fjárþörf. 

FYRIR MARKAÐSSTYRKI

Umsókn um markaðsstyrk:

  • Umsókn þarf að fylla út á umsóknareyðublaði á vef ÚTÓN.

  • Umsókninni skal fylgja vönduð markaðsáætlun þar sem sýnt er fram á hvernig stuðningurinn skapar aukin tækifæri fyrir verkefnið. Mikilvægt er að skilgreina stefnu fyrir þróun verkefnisins og hvernig stuðningurinn getur styrkt ímynd þess og stuðlað að tekjuaukningu. 

  • Með umsókninni fylgi skýr kostnaðaráætlun á því formi sem fylgir umsóknareyðublaði.

  • Framlag umsækjanda og mótframlag í verkefnið skal skilgreint í áætlun.

  • Umsækjandi eða meirihluti umsækjendahóps skal eiga skattfesti á Íslandi.

Við mat á umsóknum um markaðsstyrk er litið til eftirfarandi atriða:

  • Er tónlistarmaðurinn/hópurinn tilbúinn fyrir útflutning?

  • Er sýnt fram á trausta samstarfsaðila á þeim mörkuðum sem sótt er á?

  • Er markaðsáætlunin vel unnin og sannfærandi?

  • Er skýr sýn á sókn á tilgreinda markaði?

  • Er skýrt hverju markaðssetningin getur skilað?

Sjóðurinn styður ekki við:

  • Hljóðritun eða útgáfu.

  • Markaðssetningu á Íslandi.

STJÓRN SJÓÐSINS

Stjórn sjóðsins skipa:

  • Sindri Magnússon, formaður skipuð án tilnefningar,

  • Elíza Geirsdóttir Newman, varaformaður tilnefnd af Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar,

  • Jelena Ćirić, tilnefnd af tilnefnd af Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar.

Varamenn:

  • Gunnar Hrafnsson, vara-formaður skipaður án tilnefningar

  • Ásmundur Jónsson, tilnefndur af Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar

  • Árni Hjörvar Árnason, tilnefndur af Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar

EFTIRFYLGNI

Styrkþegar skulu gera grein fyrir ráðstöfun styrkfjárins innan árs frá móttöku þess. Ef í ljós kemur að upplýsingar hafi verið misvísandi eða rangar getur það haft þau áhrif að styrkur sé afturkallaður auk þess sem það hefur áhrif á síðari umsóknir. 

Samþykkt 16. apríl 2013
Uppfært 6. febrúar 2019
Uppfært 7. mars 2022